Íslenskuþorpið

Leið til þátttöku í daglegum samskiptum á íslensku

Íslenskuþorpið er kennsluverkefni í íslensku sem öðru máli sem myndar stuðningsnet fyrir nemendur þar sem hægt er að æfa og læra íslensku í raunverulegum aðstæðum eftir nýjum leiðum.

Íslenskuþorpið í stuttu máli

Er hagnýtt, aðgengilegt og skemmtilegt.

Samið er við velviljaða einstaklinga um að tala íslensku við nemendur.

Byggist á nýjum rannsóknum á því hvernig tungumál lærast.

Er stuðningsvænt umhverfi á leið íslenskunema til virkrar þátttöku í samfélaginu.

Er þróað á vegum Háskóla Íslands en að baki því er öflugt þverfaglegt samstarfsteymi.

Eykur gagnkvæman skilning í fjölþjóðlegu samfélagi á Íslandi.

Myndar brú úr kennslustofunni yfir í dagleg samskipti á íslensku utan kennslustofunnar.

Er markvisst og sérsniðið æfingaumhverfi fyrir nemendur í íslensku sem öðru máli.

Býður upp á tækifæri til frekari rannsókna á sviði íslensku sem annars máls.

Með Íslenskuþorpinu er boðið upp á nýstárlega leið í tungumálanámi fyrir nemendur sem eru að læra íslensku sem annað mál. Íslenskuþorpið myndar stuðningsnet sem er að finna innan ákveðinna fyrirtækja, stofnana og hjá velviljuðum einstaklingum í samfélaginu: t.d. á kaffihúsi, bókasafni, veitingastað, bókabúð, félagsmiðstöðvum eldri borgara, samstarfsfólki á vinnustöðum og starfsfólki í grunnskólum.

Íslenskunemarnir undirbúa sig í kennslustofu áður en þeir fara í Íslenskuþorpið til að sinna daglegum erindum sínum og áhugamálum. Starfsfólk og þátttakendur í Íslenskuþorpinu tekur nemunum fagnandi og tryggir að íslenska verði samskiptamálið. Íslenskuþorpið myndar þannig styðjandi umgjörð á leið til virkrar þátttöku í samfélaginu.

Stuðningsnetið

 

    Íslenskuþorpið myndar stuðningsnet þar sem velviljaðir og vinsamlegir þátttakendur, fyrirtæki og stofnanir taka á móti nemendum og tala íslensku.  Stuðningsnetið er aðlagað og hannað að þörfum nemenda á námskeiðunum. Fjöldi og val þátttakenda á hverju námskeiði fer eftir þörfum, aldri og markmiðum nemenda. Þátttakendur fá fræðslu og upplýsingar um þátttökuna.  Nemendur læra að óska eftir samskiptum með því að segja slagorð Íslenskuþorpsins „Viltu tala íslensku við mig?“ Val á þátttakendum miðast við að nemandinn geti æft ákveðinn orðaforða og um leið aukið sjálfstraust í notkun tungumálsins.

    Afar mikilvægt er að upplifun nemandans sé jákvæð í byrjun en það hefur áhrif á áframhaldandi nám og getur flýtt fyrir máltileinkuninni.

    Dæmi um þátttakendur:

    Kaffihús, veitingastaðir, bakarí, bókabúðir, bókasöfn, samstarfsfólk á vinnustöðum, mentorar, starfsfólk í grunnskólum eins og á skrifstofu, í mötuneyti, fagkennarar, félagsmiðstöðvar eldri borgara, íþróttafélög og frístundaheimili.