Um Íslenskuþorpið

Íslenskuþorpið er kennsluverkefni í íslensku sem öðru máli við Háskóla Íslands. Það hefur verið kennt og þróað frá árinu 2012 í háskólanum og víða á íslenskunámskeiðum í samfélaginu. Í Íslenskuþorpinu er boðið upp á markvisst og sérsniðið æfingaumhverfi fyrir íslenskunema í raunverulegum aðstæðum þar sem gengið er út frá því að tungumál lærist í félagslegum samskiptum.

Aðferðin myndar brú úr kennslustofunni yfir í dagleg samskipti á íslensku og virkrar þátttöku í samfélaginu. Samið er við fyrirtæki, stofnanir og velviljaða einstaklinga um að taka þátt í verkefninu og eiga samskipti við nemendur þannig er íslenskunámið gert aðgengilegt, hagnýtt og skemmtilegt.

Boðið er upp á námskeið fyrir byrjendur og lengra komna nemendur, starfstengd námskeið, námskeið fyrir kennara og einkatíma.

 Fræðilegur grunnur Íslenskuþorpsins

 

Fræðilegur grundvöllur Íslenskuþorpsins byggir á rannsóknum á máltileinkun í samskiptum utan kennslustofunnar. Nýjar rannsóknir í máltileinkun ganga út frá því að máltileinkun geti ekki orðið og verði ekki án málnotkunar. Rannsóknir sýna jafnframt að það sem skiptir mestu máli er að tala við einhvern sem kann meira í nýja málinu en nemandinn sjálfur og að tungumálanámið fari fram í samhengi við aðstæður.

Niðurstöður doktorsrannsóknar Guðrúnar Theodórsdóttur dósents í íslensku sem öðru máli við Háskóla Íslands frá 2010 sýna hvernig hægt er að nýta hversdagsleg samskipti utan kennslustofunnar til tungumálanáms. Þær niðurstöður hafa m.a verið nýttar til að hanna kennsluaðferð og verkefni Íslenskuþorpsins. Óhætt er að segja að þar sé beitt nýjum aðferðum í kennslu og boðið upp á nýjar leiðir við tileinkun íslensku sem annars mál.

Kennsluferlið sýnir hvernig vinnan í kennslustofunni, samskipti nemenda við viðmælendur í Íslenskuþorpinu og heimavinnan eru allt hluti af þeirri þjálfun sem nemendur fá undir hatti Íslenskuþorpsins með það að markmiði að búa þá undir þátttöku í raunveruleikanum.

Af hverju Íslenskuþorp?

Það er ljóst að málnotkun utan kennslustofunnar skiptir máli fyrir tileinkun annars máls, þ.m.t. íslensku. Nemendur í íslensku sem öðru máli fá ekki mörg tækifæri til að nota nýja málið við daglegar aðstæður í skólunum og úti í samfélaginu. Ástæðurnar eru margvíslegar, þá ber helst að nefna að enskukunnátta er almenn meðal Íslendinga og þeir skipta gjarnan yfir í ensku þegar íslenskunemarnir reyna að tala íslensku.

Sú þjálfun sem nemendur fá í samskiptum á íslensku er því oft á tíðum einskorðuð við kennsluumhverfið. Kennslan í kennslustofunni tekur hins vegar ekki nægilegt mið af því sem nemendur eru að reyna að gera utan hennar. Þannig getur verið erfitt fyrir nemendur að brúa bilið milli þess sem þeir læra í kennslustofunni og þess sem þeir gera utan hennar.

Tilgangur Íslenskuþorpsins er að skapa aðstæður fyrir málnema í íslensku sem öðru máli til að nota íslensku við ólíkar aðstæður og gefa þeim kost á að æfa tungumálið utan kennslustofunnar í samskiptum við íslenskumælandi fólk. Nemendur geta treyst því að viðmælendur í stuðningsnetinu sem Íslenskuþorpið myndar munu leggja sig fram um að skilja erindi þeirra og að samskiptin muni fara fram á íslensku. Með Íslenskuþorpinu skapast því nauðsynleg tengsl milli kennslustofunnar og daglegs lífs utan hennar. Íslenskuþorpið miðar að því að nemendur tileinki sér íslensku, noti hana í samskiptum og öðlist þannig færni til þátttöku á íslensku í íslensku samfélagi.

Þessi nýstárleg leið í tungumálanámi hefur reynst afar vel í íslenskukennslu og hefur jafnframt aukið á gagnkvæman skilning í fjölþjóðlegu samfélagi á Íslandi.

Language Learning in the Wild

Íslenskuþorpið er samnorrænt og þverfaglegt verkefni þar sem fræðimenn og kennarar á sviði annarsmálsfræða, gagnvirkrar hönnunar í tungumálanámi, kennslufræði og grafískrar hönnunar, sjá um þróun og hönnun kennsluaðferðarinnar og stuðningsnetsins (sjá Language Learning in the Wild: languagelearninginthewild.com).

Hugmyndavinnan hófst árið 2010 en frá árinu 2012 hefur Íslenskuþorpið verið partur af mismunandi námskeiðum í Háskóla Íslands. Íslenskuþorpið hefur verið útfært og mótað fyrir mismunandi hópa í samfélaginu eins og fyrir Mími, Reykjavíkurborg og Vinnumálastofnun. Nú stendur yfir innleiðing og uppsetning Íslenskuþorps í grunnskólum Grafarvogs og á Kjalarnesi.

 

Viðurkenningar

Íslenskuþorpið hlaut Evrópumerkið árið 2013 fyrir fyrir nýbreytni og frumleika í tungumálakennslu og tungumálanámi fyrir erlenda nemendur í Háskóla Íslands.

Íslenskuþorpið hlaut Evrópumerkið 2019 fyrir árangursrík starfstengd íslenskunámskeið á vinnustöðum.